Skip to main content

Spurt og svarað

Matstæki eru ólíkar gerðir af prófum sem lögð eru fyrir nemendur til að fá upplýsingar um hvernig þeim gengur í námi. Þegar fylgst er með framvindu nemandans er matstækið lagt fyrir reglulega og skoðað hversu vel viðkomandi gengur að ná tökum á námsefninu. Sum matstæki veita upplýsingar um hvort nemendur séu að glíma við erfiðleika á tilteknu sviði og hvort þeir þurfi aukna aðstoð 

Námsmatskerfi (e. educational assessment system) er yfirheiti yfir safn prófa sem mynda heild og sýna námslega stöðu nemenda á ólíkum tímum. 

Yfirleitt er talað um matstæki þegar um er að ræða staðlað próf. Próf er mun almennara og nær yfir alls konar próf, stöðluð sem óstöðluð. 

Stöðluð próf (e. standardized tests) mæla sömu hugsmíð eða færni með sama hætti hjá öllum próftökum. Þetta felur meðal annars í sér að atriði eins og efnisinnihald, prófaðstæður, próftími, fyrirgjöf og úrvinnsla, ásamt fleiri þáttum, eru eins hjá öllum próftökum. Oftast fylgja stöðluðum prófum viðmið byggð á úrtaki þátttakenda sem gefa kost á annars konar túlkun niðurstaðna en í tilfelli óstaðlaðra prófa. Stöðluð próf eru þróuð á grunni inntakstöflu sem tryggir að ólíkar prófútgáfur mæli færni eða hugsmíð með sama hætti. Stöðluð próf hafa yfirleitt gengið í gegnum greiningu á réttmæti og áreiðanleika og gefa samanburðarhæfar niðurstöður.

Samræmt námsmat (e. externally developed assessments; national assessments) eru þau próf og matstæki sem eru þróuð utan skólanna sjálfra og ætluð öllum skólum. Það eru í reynd öll próf og matstæki önnur en þau sem einstakir skólar eða kennarar útbúa. Orðalagið ytra námsmat væri í reynd meira lýsandi en samræmt námsmat. Ytra námsmat er alla jafna staðlað. Dæmi um slíkt námsmat eru Matsferill, samræmdu prófin sem notuð voru frá 1976 til 2021, HLJÓM-2, Talnalykill, ýmis málþroskapróf og matslistar fyrir líðan. 

Inntakstafla (e. table of specifications) er skilgreining á því hvernig próf eða matstæki mælir þá færni eða hugsmíð sem því er ætlað að meta. Í inntakstöflu koma alla jafna fram skilgreiningar á efnisflokkum (t.d. bókstafslegur skilningur, djúpur skilningur, ályktanir og orðaforði í lesskilningi eða tölur og reikningur, tölfræði og líkindi, algebra og rúmfræði og mælingar í stærðfræði), fjöldi prófatriða, þyngd prófsins og hugsanlega fleira. Inntakstafla tengir prófið við þann fræðilega grunn sem það er byggt á. Inntakstöflur fyrir matstæki í Matsferli eru byggðar á aðalnámskrá grunnskóla. 

Stafræn próf (e. digital tests) eru lögð fyrir nemendur í gegnum þar til bær forrit sem birta prófefnið stafrænt. Forritið safnar svörum nemenda í gagnagrunn sem einkunnir eru byggðar á.  

Kostur stafrænna prófa er fyrst og fremst stafrænt umhverfi þeirra er nær þeim veruleika sem nemendur þekkja í daglegu lífi. Einnig felst tímasparnaður og meiri sveigjanleiki í framkvæmd í stafrænu umhverfi miðað við próf á pappír. Alla jafna er fljótlegra að birta niðurstöður prófa í stafrænu umhverfi. Stafræn próf geta boðið upp á öðruvísi prófatriði en þau sem eru á blaði en engin haldbær gögn liggja fyrir um að stafræn próf séu betri en próf á pappír. 

Réttmæti (e. validity) niðurstaðna prófa eða matstækja felst í mati á því að hvaða marki rannsóknir og fræðilegar greiningar styðja túlkun á niðurstöðum viðeigandi. Meðal gagna sem alla jafna er litið til við mat á réttmæti eru efnisinnihald prófa, tengsl við aðrar mælingar á sömu færni og þáttabygging prófa. Í tilviki Matsferils vegur það þungt að efnisinnihald prófa og matstækja (inntakstafla þeirra) sé í samræmi við aðalnámskrá og fræðilegan bakgrunn. Réttmæti snýr að túlkun niðurstaðna en ekki að prófinu sjálfu og er notað til að styðja við ályktanir sem dregnar eru af niðurstöðum þess.

Áreiðanleiki (e. reliability) prófa og matstækja er mat á nákvæmni mælingar á færni eða hugsmíð með ákveðnu mælitæki. Tvö ólík próf sem mæla sömu færni geta verið misnákvæm. Áreiðanleiki er metinn með stuðli sem fellur á bilinu 0,00 til 1,00. Eftir því sem nákvæmni mælitækis eykst þá nálgast áreiðanleikastuðull 1,00. Eftir því sem stuðullinn lækkar dregur úr nákvæmninni og hætt er við að endurteknar mælingar sýni gjörólíka niðurstöðu. 

Próf eða matstæki (e. test; assessment tool) er skilgreining á því hvernig skuli mæla ákveðna færni eða hugsmíð og byggir á inntakstöflu, fjölda prófatriða, fyrirlagnarreglum og fleiru. Prófútgáfa (e. test form) er verkfæri sem þróað er út frá þessari skilgreiningu. Til dæmis eru samræmd könnunarpróf í íslensku frá 2014 og 2015 tvær ólíkar prófútgáfur af sama prófi. Árin 2017 til 2021 voru not fleiri en ein prófútgáfa af samræmdu könnunarprófunum á hverju ári.  

Leiðsagnarmat (e. formative assessment) er notkun á niðurstöðum prófa og matstækja í viðleitni til að tryggja hverju barni viðeigandi kennslu og stuðning sem er einmitt það sem hringrás mats og kennslu gerir ráð fyrir.

Lokamat (e. summative assessment) er notkun á niðurstöðum prófa og matstækja sem miðar að því að gefa heildarmynd af stöðu nemenda. Lokamat er mat sem fer fram við lok kennslutímabils, annar eða skólaárs og er byggt á gögnum sem skólinn hefur aflað yfir námstímann. Lokamat er ekki staðlað og getur verið byggt á margs konar gögnum og námsmarkmiðum. Lokamat er ekki endilega sambærilegt milli skóla. 

Matsrammi (e. assessment framework) er skjal þar sem skilgreindir hæfniflokkar og viðmið koma fram sem lögð eru til grundvallar mati á tiltekinni færni. Slíkur rammi er mikilvægt verkfæri fyrir kennara til að fylgjast með framvindu í námi nemenda, hvar styrkleikar og áskoranir liggja og aðlaga kennsluaðferðir í samræmi við það. Matsrammar geta líka hjálpað skólum að fá heildarsýn yfir færni tiltekins nemendahóps eða -hópa.