Stöðu- og framvindupróf
Markmið stöðu- og framvinduprófa er að draga upp sem nákvæmasta mynd af stöðu nemenda, hvar áskoranir og styrkleikar liggja. Þau verða lögð fyrir einu sinni eða oftar á ári og geta niðurstöður nýst kennurum við mat á námsárangri og til skipulagningar kennslu og íhlutunar. Slík hringrás mats og kennslu er mikilvægur grunnur markvissra kennsluhátta og auðveldar kennurum að laga kennslu að ólíkum þörfum nemenda.
Stöðu- og framvindupróf Matsferils eru stöðluð en það þýðir að form, efnisinnihald, matsreglur og reglur um fyrirlögn prófanna eru fyrir fram ákveðin. Fyrirlögn verður þó sveigjanlegri en í tilfelli gömlu samræmdu könnunarprófanna þar sem hún mun ekki miðast við ákveðinn dag heldur lengri prófaglugga. Þannig verður auðveldara að laga notkun Matferils að kennsluskipulagi hvers skóla. Hverju prófi fylgja aldursbundin viðmið um frammistöðu og því verður mögulegt að bera niðurstöður hvers nemanda, bekkjar eða skóla saman við niðurstöður fyrir landið í heild.
Í frumvarpi laga um námsmat er gert ráð fyrir að skólar verði skyldugir til þess að leggja stöðu- og framvindupróf í lesskilningi og stærðfræði fyrir í 4., 6. og 9. bekk. Að öðru leyti er notkun stöðu- og framvinduprófa valfrjáls.
Markmið: | Að draga upp sem nákvæmasta mynd af stöðu nemenda, hvar áskoranir og styrkleikar liggja. |
Hvernig próf? | Stafræn hóppróf. |
Fyrirlögn: | Einu sinni eða oftar á skólaári innan tiltekins prófaglugga. |
Dæmi: | Lesfimipróf, stöðu- og framvindupróf í lesskilningi og stærðfræði. |
Upplýsingar sem prófin veita: | Hver staðan og framvindan er í námi nemenda innan tiltekinna námsgreina. |
Notkun upplýsinga: | Hverju prófi fylgja aldursbundin viðmið um framvindu og því mögulegt að bera niðurstöður hvers nemanda, bekkjar eða skóla saman við landsmeðaltal. Niðurstöður notaðar til skipulagningar kennslu og mats á árangri hennar við lotu- og annarlok eða við lok skólaárs; til að fylgjast með gæðum skólastarfs og þróun/breytingum innan menntakerfisins. |
Skimunarpróf
Markmið skimunarprófa er að finna börn sem mögulega glíma við vanda á tilteknu sviði svo hægt sé að veita viðeigandi aðstoð sem fyrst (snemmtæka íhlutun) eða skipuleggja nám í samræmi við hæfni og þarfir hvers og eins nemanda. Prófunum fylgja aldursbundin viðmið. Lendi barn t.d. undir viðmiði sem nemur 1,5 staðalfráviki frá meðaltali, þarf það á íhlutun að halda. Skimunarpróf eru lögð fyrir einu sinni eða oftar en mikilvægt er að niðurstöður séu alltaf nýttar til að efla færni eða koma til móts við þarfir barns með viðeigandi hætti. Ef gripið er inn í nógu snemma, með viðeigandi íhlutun, eru auknar líkur á að komið verði í veg fyrir eða dregið sé úr námsvanda seinna meir.
Skimunarpróf eru oftast fremur stutt próf sem lögð eru fyrir heilan árgang. Þau eru lögð fyrir lítinn hóp barna í senn eða eitt barn í einu. Upplýsingar sem fást úr skimunarprófi eru einkum notaðar af kennurum og sérfræðingum innan stoðþjónustunnar svo hægt sé að skipuleggja kennslu og stuðning með þarfir allra nemenda í huga. Upplýsingarnar eru einnig ætlaðar skólastjórnendum og sveitarfélögum svo hægt sé að fylgjast með hlutfalli barna sem þurfa stuðning hverju sinni. Forsjáraðilar fá alltaf niðurstöður skimana þar sem þeir eiga að vera virkir þátttakendur í námi barna sinna. Sýni barn lítil viðbrögð við íhlutun þarf að leggja fyrir það greinandi próf sem getur veitt nákvæmari upplýsingar um orsakir vanda.
Markmið: | Að finna börn sem glíma við vanda á tilteknu sviði svo hægt sé að veita viðeigandi aðstoð sem fyrst. |
Hvernig próf? | Stutt próf sem geta verið ýmist munnleg eða skrifleg. |
Fyrirlögn: | Einu sinni til tvisvar fyrir heilan árgang en eitt barn eða lítinn hóp í einu. |
Dæmi: | HLJÓM-2, Lesskimun fyrir 1. bekk og LANÍS. |
Upplýsingar sem prófin veita: | Hvort barn sé í áhættuhópi fyrir vanda sem hefur áhrif á námsárangur þess. |
Notkun upplýsinga: | Til skipulagningar á kennslu og stuðningi fyrir börn sem mögulega glíma við vanda, til að fylgjast með árangri af stuðningi og til að safna upplýsingum um hlutfall barna sem þurfa stuðning. |
Greinandi próf
Markmið greinandi prófa er að kanna með nákvæmum hætti styrk- og veikleika nemenda á ákveðnu sviði og staðfesta grun um vanda. Greinandi próf geta veitt skýringu á því hvers vegna barn sýnir lítil viðbrögð við markvissum stuðningi, hvers eðlis vandinn er og hversu djúpstæður hann kann að vera. Greinandi próf eru stöðluð einstaklingspróf sem lögð eru fyrir af sérfræðingi til að tryggja vandaða fyrirlögn og réttmæta túlkun á niðurstöðum prófsins. Greinandi próf eru ekki lögð fyrir alla og þá yfirleitt ekki lögð fyrir nema einu sinni til tvisvar sinnum.
Þar sem greinandi próf veita ítarlegar upplýsingar um stöðuna gefa þau sérfræðingum færi á að sérsníða lausnir og koma þar með til móts við námslega stöðu og þarfir nemandans. Niðurstöðurnar eru einnig gagnlegar fyrir barnið sjálft og forsjáraðila sem fá skýringu á því hvers vegna námið gengur e.t.v. ekki hnökralaust fyrir sig. Það getur skipt miklu máli fyrir líðan og sjálfsmynd barnsins.
Markmið: | Að greina með nákvæmum hætti styrk- og veikleika barns á tilteknu sviði. |
Hvernig próf? | Oftast langt og ítarlegt próf með mörgum undirprófum. Lagt fyrir af sérfræðingi á tilteknu sviði. |
Fyrirlögn: | Alltaf er um einstaklingsfyrirlögn að ræða. |
Dæmi: | LOGOS – mat á lestrarerfiðleikum; þroskamat; málþroskapróf. |
Upplýsingar sem prófin veita: | Prófin kortleggja stöðu og mögulegan vanda með nákvæmum hætti. Niðurstöður prófsins veita upplýsingar um æskileg viðbrögð og sveigjanleika sem gagnast barninu. |
Notkun upplýsinga: | Niðurstöður eru einkum notaðar til að staðfesta grun um eðli vanda og til að bregðast betur við námslegum þörfum einstaklings. Skólar og sveitarfélög kunna að safna ópersónugreinanlegum upplýsingum um fjölda nemenda sem taka greinandi próf og hversu hátt hlutfall greinist með vanda. |
Verkfærakista Matsferils
Verkfærakista Matsferils mun innihalda fjölbreytt verkfæri sem gagnast í daglegri kennslu og mati á námi í skólastarfi. Þetta eru verkfæri eins og gátlistar og matsrammar sem hægt er að nota til að styðja við nám og þátttöku nemenda í eigin námi. Verkfærakista Matsferils verður í stöðugri þróun og leitast verður við að mæta óskum skólasamfélagsins eftir því sem áherslur og þarfir þess þróast og breytast.