Um Matsferil
Matsferill er safn matstækja sem dregur upp heildstæða mynd af námslegri stöðu og framförum nemenda, reglulega yfir skólagönguna. Þeim er ætlað að auðvelda starfsfólki skóla að miða kennslu við þarfir hvers nemanda og koma auga á þau börn sem telja má í áhættu vegna framvindu í námi og þroska. Matsferill er því verkfæri sem hjálpar til við þrepaskipta þjónustu eins og farsældarlögin gera ráð fyrir.
Með Matsferli mun íslenskt skólakerfi hafa greiðari aðgang en áður að vönduðum mælingum.
Hlutverk
Matsferils
Hlutverkið er tvíþætt
Annars vegar að fylgjast með framvindu hvers barns og tryggja að það fái viðeigandi kennslu og stuðning líkt og hringrás mats og kennslu gerir ráð fyrir.
Hins vegar að afla upplýsinga um stöðu skólakerfisins í heild svo stefnumótandi aðilar geti fylgst með þróun námsárangurs yfir tíma, greint styrkleika, mögulegar áskoranir og lagt til menntaumbætur í kjölfarið.

Fyrirkomulag Matsferils
Matsferill mun ná yfir vítt svið. Í fyrstu verður lögð áhersla á að meta stöðu og framvindu í málþroska, læsi og stærðfræði. Matsferill mun samanstanda af stöðluðum stöðu- og framvinduprófum, skimunarprófum og fleiri verkfærum sem kennarar geta notað til stuðnings við mat og kennslu. Prófin verða í flestum tilfellum stafræn og skapar það möguleika á að tengja niðurstöður þeirra við Frigg nemendagrunn sem nú er í smíðum.
Hvaða þýðingu hefur Matsferill?
Með Matsferli verður í fyrsta skipti hægt að auðga niðurstöður námsmats í íslenskum grunnskólum með fjölbreyttum gögnum. Þá verður hægt að tengja niðurstöður Matsferils við námsgagnaveitu og raungera þannig þá áherslu að mæta hverju barni þar sem það er statt hverju sinni, með kennslu og námsgögnum við hæfi.
Hlutverk Matsferils í þrepaskiptum stuðningi
Tilgangur farsældarlaganna er að tryggja að öll börn fái þá þjónustu sem þau þurfa vegna náms eða annars. Þar er lögð áhersla á að grípa snemma inn í ef framfarir láta á sér standa og draga úr líkum á að vandi hafi mikil áhrif á nám. Til að það sé gert með árangursríkum hætti þarf að meta stöðu nemenda reglubundið og markvisst. Það verður hægt að gera með matstækjum Matsferils. Þannig er Matsferill mikilvægt verkfæri sem styður við framkvæmd farsældarlaganna.

Samráð vegna Matsferils
Matsferill hvílir á sterkum fræðilegum grunni en ekki síður á sjónarmiðum fjölmargra hagsmunaaðila sem hafðir voru með í ráðum við þróun hans. Þar má nefna sjónarmið og hugmyndir starfshóps sem fram koma í skýrslu á vegum Stjórnarráðsins og ber heitið „Framtíðarstefna um samræmt námsmat“, niðurstöður spurningakannana til kennara og forsjáraðila, samráðsfundi og rýnihópaviðtöl við sérfræðinga skólaþjónustu og hópviðtöl við nemendur. Þá eru ótaldir aðilar innan sveitarstjórnarkerfisins, háskólasamfélagsins og kennaraforystunnar sem hafa lagt sitt á vogarskálarnar við þróun Matsferils.
Þróun Matsferils er langtímaverkefni. Því er gert ráð fyrir áframhaldandi samráði þar sem markviss endurgjöf þeirra sem nota prófin er forsenda vandaðra matstækja og stuðningsefnis.
Skólaárin 2024–2026 munu um 20 skólar í 12 sveitarfélögum aðstoða við innleiðingu stöðu- og framvinduprófa í lesskilningi og stærðfræði. Munu þeir veita mikilvæga endurgjöf um innihald prófanna og framkvæmd í stafrænu prófaumhverfi.
Þróunarferlið
Þróun Matsferils er langtímaverkefni. Á næstu tveimur árum (2024–2026) verður áhersla lögð á að innleiða stöðu- og framvindupróf í lesskilningi og stærðfræði fyrir nemendur í 3.–10. bekk. Undirbúningur við gerð stöðu- og framvinduprófa í fleiri greinum, þar á meðal náttúruvísindum og erlendum tungumálum, mun svo hefjast skólaárið 2026–2027.
Rammi til mats og kennslu ritunar verður gefinn út í lok árs 2024 og skimunarprófið LANÍS sem gerir kennurum kleift að finna börn með seinkaðan málskilning og tjáningu strax á leikskólaaldri verður innleitt skólaárið 2024–2025. Próf sem meta framvindu í íslensku sem öðru máli, málþroskapróf til notkunar á yngsta og miðstigi grunnskóla og skimunarpróf á sviði stærðfræði eru einnig áformuð.
-
Haust 2024
- Lokahönd lögð á stöðu- og framvindupróf í lesskilningi og stærðfræði fyrir 4. til 10. bekk.
-
Vor 2025
- Samstarf við 20 skóla á landsvísu um að nota prófin og veita endurgjöf um inntak þeirra, fyrirkomulag og framkvæmd.
-
Skólaárið 2025-2026
- Stöðu- og framvindupróf í lesskilningi og stærðfræði lögð fyrir í öllum skólum í 4. til 10. bekk.
-
Skólaárið 2026-2027
- Stöðu- og framvindupróf í lesskilningi og stærðfræði lögð fyrir í öllum skólum í 3. til 10.bekk.