Hvað er
Matsferill?
Til þess að fylgjast með þroska og námsframvindu barna þarf fjölbreytt matstæki. Matsferill inniheldur þessi matstæki og aflar upplýsinga um stöðu og framfarir nemenda á mörgum sviðum, eins og til dæmis málþroska, lesfimi, stærðfræði og lesskilningi. Niðurstöður Matsferils auðvelda starfsfólki skóla að mæta hverju barni þar sem það er statt hverju sinni, með kennslu og námsgögnum við hæfi.
Með Matsferli munu nemendur, forsjáraðilar og skólar fá meiri og betri upplýsingar um stöðu og framfarir í námi en nokkru sinni áður.
Hvað eru
matstæki?
Matstæki Matsferils innihalda verkefni sem eru lögð fyrir nemendur til að fá upplýsingar um hvernig þeim gengur í námi. Þegar fylgst er með framvindu nemandans er matstækið lagt fyrir reglulega og skoðað hversu vel viðkomandi gengur að ná tökum á námsefninu. Sum matstæki Matsferils veita líka upplýsingar um hvort nemendur séu að glíma við einhverja tiltekna erfiðleika og hvort þurfi að aðstoða þá sérstaklega á því sviði.
Matstæki eru ekki bara próf
Samhliða útgáfu hvers matstækis þarf að útbúa náms- og íhlutunarefni, skipuleggja innleiðingu og veita sveitarfélögum, skólum og forsjáraðilum fræðslu og ráðgjöf svo hægt sé að bregðast við niðurstöðum með árangursríkum hætti. Allt byggist þetta á fræðilegum grunni þar sem nýjustu rannsóknir eru hafðar til hliðsjónar.
Hringrás mats og kennslu
Með því að halda vel utan um hvernig nemendur standa í námi og hvernig framvinda þeirra er gefst starfsfólki skóla tækifæri til að breyta og bæta kennslu. Upplýsingarnar á að nota til að skipuleggja kennsluna þannig að námsþörfum allra nemenda sé mætt og síðan eru þeir metnir aftur til að sjá hvernig kennslan hefur tekist. Þetta kallast hringrás mats og kennslu. Öllum matstækjum Matsferils fylgir náms- og íhlutunarefni svo hægt sé að bregðast við niðurstöðum og auka líkur á bættum árangri í námi.

Spurt og svarað
Matstæki eru ólíkar gerðir af prófum sem lögð eru fyrir nemendur til að fá upplýsingar um hvernig þeim gengur í námi. Þegar fylgst er með framvindu nemandans er matstækið lagt fyrir reglulega og skoðað hversu vel viðkomandi gengur að ná tökum á námsefninu. Sum matstæki veita upplýsingar um hvort nemendur séu að glíma við erfiðleika á tilteknu sviði og hvort þeir þurfi aukna aðstoð.
Námsmatskerfi (e. educational assessment system) er yfirheiti yfir safn prófa sem mynda heild og sýna námslega stöðu nemenda á ólíkum tímum.
Yfirleitt er talað um matstæki þegar um er að ræða staðlað próf. Próf er mun almennara og nær yfir alls konar próf, stöðluð sem óstöðluð.
Stöðluð próf (e. standardized tests) mæla sömu hugsmíð eða færni með sama hætti hjá öllum próftökum. Þetta felur meðal annars í sér að atriði eins og efnisinnihald, prófaðstæður, próftími, fyrirgjöf og úrvinnsla, ásamt fleiri þáttum, eru eins hjá öllum próftökum. Oftast fylgja stöðluðum prófum viðmið byggð á úrtaki þátttakenda sem gefa kost á annars konar túlkun niðurstaðna en í tilfelli óstaðlaðra prófa. Stöðluð próf eru þróuð á grunni inntakstöflu sem tryggir að ólíkar prófútgáfur mæli færni eða hugsmíð með sama hætti. Stöðluð próf hafa yfirleitt gengið í gegnum greiningu á réttmæti og áreiðanleika og gefa samanburðarhæfar niðurstöður.
Samræmt námsmat (e. externally developed assessments; national assessments) eru þau próf og matstæki sem eru þróuð utan skólanna sjálfra og ætluð öllum skólum. Það eru í reynd öll próf og matstæki önnur en þau sem einstakir skólar eða kennarar útbúa. Orðalagið ytra námsmat væri í reynd meira lýsandi en samræmt námsmat. Ytra námsmat er alla jafna staðlað. Dæmi um slíkt námsmat eru Matsferill, samræmdu prófin sem notuð voru frá 1976 til 2021, HLJÓM-2, Talnalykill, ýmis málþroskapróf og matslistar fyrir líðan.